top of page

HVAÐ ER MÁLSTOL?

Málstol er máltruflun sem getur haft áhrif á máltjáningu og málskilning, lestur og skrift. Algengasta orsök málstols er heilablóðfall en heilaæxli, sýking í heila, heilabilun eða annar heilaáverki getur einnig valdið málstoli.

Heilinn skiptist í tvö heilahvel. Málgeta flestra rétthentra einstaklinga er geymd í vinstra heilahveli og getur skaði í vinstra heilahveli leitt til máltruflana. Skaði í hægra heilahveli getur leitt til annarra vandamála sem hafa óbein áhrif á samskipti s.s. skert athygli og minni. 

Málstol gerir fólki erfitt fyrir að skilja, tala, lesa og skrifa. Málstol hefur ekki áhrif á persónuleika eða vitsmuni fólks. Heilaáfall getur einnig valdið þvoglumæli og verkstoli (munnlegu og/eða mállegu).

 

Einkenni málstols

Málstol getur gert fólki erfitt fyrir að skilja talað mál, tala, lesa og skrifa.

Tjáning:

 • Orðminniserfiðleikar: einstaklingur finnur ekki orðin.

 • Einstaklingur notar röng orð. Stundum eru orðin merkingarlega eða hljóðfræðilega lík, t.d. diskur fyrir bolli eða bóli fyrir bolli. 

 • Einstaklingur notar bullorð.

 • Einstaklingur á erfitt með að segja heilar setningar, notar frekar stök orð eða einfaldar setningar í skeytastíl.

 • Einstaklingur notar bullorð í bland með raunverulegum orðum og myndar illskiljanlegar setningar. 

 

Skilningur:

 • Einstaklingur skilur ekki það sem aðrir segja. Einstaklingi finnst erfiðara að skilja viðmælanda sinn ef hann talar hratt og notar langar setningar.

 • Einstaklingi finnst erfiðara að skilja aðra ef það er truflun frá umhverfinu, t.d. kveikt á sjónvarpi eða útvarpi eða margir að tala. 

 • Einstaklingur getur átt erfitt með að skilja brandara og óljóst orðalag.  

Lestur og skrift:

Erfiðleikar geta birst í eftirfarandi:

 • Einstaklingur getur átt erfitt með að lesa blöð, bækur, leiðbeiningar o.s.frv. Stundum getur einstaklingur lesið stök orð og stuttar setningar. 

 • Einstaklingur á í erfiðleikum með stafsetningu og að raða orðum rétt í setningu. 

 • Einstaklingur getur átt erfitt með að nota tölur eða reikna, t.d. getur verið erfitt að segja hvað klukkan er, telja peninga, leggja saman og draga frá. 

Orsakir málstols:

Algengasta orsök málstols er heilablóðfall. Heilaæxli, sýking í heila, heilabilun eða annar heilaáverki getur einnig valdið málstoli.

Talmeinafræðingar greina og veita meðferð við málstoli.

Heimildir: 

http://www.asha.org/public/speech/disorders/Aphasia/

Hvað er málstol?: About
bottom of page