top of page
málstol.jpg

ÓLÍKAR TEGUNDIR MÁLSTOLS

Málstol skiptist í stórum dráttum í tvo flokka: 

  • reiprennandi málstol

  • málstol sem ekki er reiprennandi 

Málstol sem ekki er reiprennandi (e. non-fluent) einkennist af því að hljóð, orð eða setningar er borið fram með erfiðismunum, framburður er stirður og orðin eru einföld, stutt og fá.

Reiprennandi málstol (e. fluent) einkennist hins vegar af því að talið er reiprennandi, hljóðmyndun er áreynslulaus og setningar innihalda yfirleitt nokkur raunveruleg orð, en einnig mikið af endurteknum frösum og bullorðum, sem erfitt getur verið að fá botn í.

Broca málstol, algert málstol (e. global aphasia) og transcortical motor málstol eiga það öll sameiginlegt að tal er stirt og framburður einstaklinga er áreynslumikill. Einstaklingar með Broca málstol eða transcortical motor málstol eru með góðan málskilning

 

Algert málstol hefur þau áhrif á einstakling að öll hans málkunnátta truflast, hvort sem það varðar máltjáningu eða málskilning. Talið verður stirt, orðin eru jafnvel bundin við örfá atkvæði, skilningur er takmarkaður og lestur og skrift mjög skert. 

Wernicke málstol og transcortical sensory málstol eru svokölluð reiprennandi málstol. Einstaklingar eiga þá ekki í vandræðum með að koma málhljóðum og setningum frá sér en geta átt í miklum erfiðleikum með málskilning.  Hljóða- og orðabrengl er algengt í tali einstaklinga með Wernicke málstol. 

 

Í leiðnimálstoli og nefnistoli er talið reiprennandi en væg skerðing getur verið á málskilningi. Hljóðabrengl getur heyrst í tali einstaklinga með leiðnimálstol og þeir eiga erfitt með að endurtaka orð og setningar. 

Nefnistol einkennist af erfiðleikum einstaklings við að finna orð en það getur verið bundið við sérstaka orðflokka, svo sem nafnorða eða sagnir, eða náð yfir alla orðflokkana. 

Ofangreindar upplýsingar um ólíkar gerðir málstols eru fengnar með góðfúslegu leyfi Eyrúnar Bjarkar Einarsdóttur úr B.A. ritgerð hennar "Málstol og mállegt verkstol". Hér má finna ritgerðina í heild sinni.

Ólíkar tegundir málstols: About
bottom of page